Friðland Svarfdæla

Friðland Svarfdæla í Svarfaðardal er um 540 ha. að stærð , eða um 8 km2, votlendissvæði beggja vegna Kort af Friðlandi SvarfdælaSvarfaðardalsár, neðan frá sjó og fram að Húsabakkaskóla.  Svæðið var friðlýst af frumkvæði landeigenda
árið 1972 og er elsta votlendisfriðland landsins.  

Náttúrufar svæðisins skapar kjörlendi fyrir hinar ýmsu fuglategundir en víðáttumikið landflæmið skiptist í þurra árbakka og blautar mýrar með stararflóum, síkjum og gróðursælum seftjörnum. Í friðlandinu verpa yfir 30 tegundir fugla sem gerir svæðið að kjörlendi fuglaskoðunarfólks.

Göngustígar og fuglaskoðunarhús

Frá Húsabakka er búið að leggja merktar, auðfarnar gönguleiðir um hluta friðlandsins þar sem hægt er að sjá upplýsingar um fugla og gróðurfar. Þar er einnig búið að setja niður fuglaskoðunarhús og flotbrýr til að auðvelda umferð um svæðið. Göngubrú liggur af svæðinu yfir Svarfaðardalsá og tengir saman friðlandið og Hánefsstaðarreit sem er skógreitur með skógarstígum og áningarstöðum.

Auk þess að ganga um friðlandið frá Húsabakka er einnig hægt að ganga merktan stíg frá Olís á Dalvík, stíg sem liggur umhverfis svokallaðan Hríshöfða við Hrísatjörn í mynni Svarfaðardals, en þar er einnig að finna skilti með upplýsingum um fugla og gróðurfar auk fuglaskoðunarhúss.

Jarðminjar og landslag

Svarfaðardalur er mótaður af ísaldarjöklum og í botni dalsins er að finna jökulset og minjar sem tilkomnar eru vegna samspils íss og vatns. Frá landnámi hefur Svarfaðardalsá haft mikil áhrif á landslag dalsins með framburði sínum og rofi og er áin einn helsti áhrifavaldur á landslag innan Friðlands Svarfdæla.

Svarfaðardalsá er dragá með breytilegu vatnsrennsli og talsverðum framburði. Af þeim sökum breytist farvegur árinnar með nokkurra ára eða áratuga fresti og til verða áreyrar með árseti. Neðst í dalnum, þar sem land er flatara og afl árinnar minna, eru bakkar árinnar stöðugri. Ágangur sjávar hefur byggt upp sjávarkamb við ósa árinnar sem hefur leitt til þess að mikið votlendi myndaðist og byggir fuglalíf friðlandsins að mestu á þessu votlendi. 

Jarðvegur og gróður

Jarðgrunnur í Svarfaðardal einkennist af jökulurð og framburði Svarfaðardalsár sem hlykkjast niður eftir dalnum. Í friðlandinu hefur jarðvegur safnast upp m.a. vegna hægs rennslis árinnar þar sem skapast hefur vot- og tjarnlendi. Gróska votlendisins er mikil og hafa a.m.k. 160 tegundir votlendisplantna verið greindar innan friðlandsins.

Svarfaðardalsá brýtur sumstaðar á grasbakka árinnar og veldur þar gróður- og jarðvegsrofi sem reynt hefur verið að stöðva með hleðslum og íburði. Næst ósum er sjávarsandur ríkjandi og gróður lítill.

Nokkuð er um ágengar framandi tegundir í friðlandinu þar er helst að nefna alaskalúpínu en skógarkerfil, heimanjóla og bjarnarkló er einnig að finna í nágrenninu. Sveitarfélagið sér um útrýmingu ágengra plöntutegunda í landi sveitarfélagsins.

Dýralíf

Fuglalíf einkennir Friðland Svarfdæla en þar verpa um eða yfir 30 fuglategundir auk þess sem votlendið er viðkomustaður margra tegunda á leið sinni á varpslóðir. Algengustu fuglategundir í friðlandinu eru m.a. grágæs, hettumávur, jaðrakan, rauðhöfði og stormmávur.

Fuglategundir í Friðlandinu

Á Byggðasafninu Hvoli má finna fjölda uppstoppaðra fugla sömu tegundar og þeirra sem koma við hér í Friðlandinu.

Endur og gæsir
Æðarfugl, stokkönd,  rauðhöfði, toppönd, gulönd, urtönd, skúfönd, duggönd, flórgoði, hávella, grafönd, grágæs, lómur, álft

Spörfuglar og aðrir
Þúfutittlingur, auðnutittlingur, steindepill, skógarþröstur, maríuerla, músarrindill, rjúpa, brandugla

Mávar
Svartbaku, sílamávur, stormmávur, hettumávur, kjói, kría

Vaðfuglar
Jaðrakan, spói, óðinshani, heiðlóa, sandlóa, hrossagaukur, lóuþræll, tjaldur

Gestir sem ekki verpa
Hrafn, fálki, smyrill, himbrimi, heiðagæs, helsingi, gráhegri, straumönd, tildra, sendlingur, hvítmávur, silfurmávur, rita

Saga

Saga Friðlands Svarfdæla er samofin sögu mannlífs í dalnum. Auðlindir árinnar og votlendisins nærri ósum skipti bændur miklu máli. Hlunnindi á borð við eggjatöku og veiði í ánni eru þar augljósastar. Einnig var áin beisluð og hún nýtt til áveitna á vorin, fyrir varp. Var áin þá stífluð og henni veitt um engjar til að auka grassprettu sumarsins. Víða má sjá leifar mannvirkja sem notuð voru við stíflugerðina auk þess sem nokkrir bændur halda enn þann dag í dag í hefðina.

Umsjónarsamningur Friðlands Svarfdæla